Stofnun sameiginlegs gjaldeyrissjóðs Evrópusambandsins (ESB) sem starfa á með svipuðum hætti og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) er aðeins til þess fallinn að auðvelda ESB ríkjum útgöngu úr myntbandalagi Evrópu.

Þannig á hinn nýi sjóður, sem kallaður hefur verið EMF, að auðvelda ríkjum að kasta evrunni án þess að ganga úr Evrópusambandinu.

Þetta er niðurstaða Wolfgang Münchau, eins aðstoðarritstjóra breska blaðsins Financial Times, en hann fjallaði um hugmynd Þjóðverja að stofnun EMF í helgarútgáfu blaðsins.

Það er Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sem talað hefur hvað mest fyrir stofnun EMF. Axel Weber, seðlabankastjóri Þýskalands, gagnrýndi hugmyndina í samtal við fjölmiðla í síðustu viku eins og fram kom í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag.

Münchau spyr hvort að Þjóðverjar séu með hugmyndinni að stofnun EMF að dreifa athyglinni frá vandamálum Grikklands sem nú riðar á barmi gjaldþrots en Þjóðverjar hafa verið mjög harðir í afstöðu sinni um takmarkaða aðstoð til handa Grikklandi.

Münchau kemst þó að þeirri niðurstöðu að stofnun EMF sé ekki til að aðstoða evruríki í vandaræðum, heldur til að hjálpa þeim að komast út úr myntsamstarfinu. Þannig segir Münchau að þýsk yfirvöld hafi gefið í skyn að björgun Grikklands yrði síðasta björgunin undir sólinni. Ef búið væri að koma EMF á stofn væri Grikkir að undirbúa það að kasta evrunni með aðstoð ESB.

Þá segist Münchau hingað til hafa verið þeirrar skoðunar að Þjóðverjar myndu gera allt til að halda evrusamstarfinu gangandi. Þjóðverjar hafi grætt vel á því að halda evrunni nokkuð veikri en þýska hagkerfið þrífst að mestu leyti á útflutningi. Hins vegar viðurkennir Münchau að hann hafi haft rangt fyrir sér með þá skoðun, allt bendi til þess að Þjóðverjar vilji losna við vandræðaríki úr evrusamstarfinu.

Sjá leiðara Münchau í heild sinni.