Breska dagblaðið Financial Times greinir frá því í dag að útprent af samtali fjármálaráðherra Breta Alistair Darling við Árna Mathiesen fjármálaráðherra veki upp spurningar um fullyrðingar Darlings um að Íslendingar hafi neitað að standa á bak við skuldbindingar sínar á innlánareikningum í Bretlandi.

David Ibison, fréttaritari FT í Reykjavík, hefur undir höndunum afrit af samtalinu sem var birt í Kastljósi Sjónvarpsins í gær og má finna hér .

Í frétt FT kemur fram það mat að hvergi sjái þess merki að fjármálaráðherra Íslands segi með afgerandi hætti að Ísland ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar.

Þess í stað segi Árni að Ísland hyggist nota tryggingakerfi sitt (e. compensation scheme) til þess mæta skuldbindingum gagnvart breskum innlánaeigendum. Það feli í sér að greiða €20,887 (£16,462) semkvæmt ákvæðum Evrópska efnahagssvæðisins.

Financial Times birtir eftirfarandi hluta samtalsins:

Darling: Hvað með eigendur innistæðna hjá ykkur sem eiga innistæður í útibúunum í London?

Árni: Við höfum tryggingarsjóð innána samkvæmt tilskipuninni (tilskipun ESB) og hvernig hann starfar er útskýrt í bréfinu og sömuleiðis loforð stjórnvalda um stuðning við sjóðinn.

Darling: Svo réttindi almennings í þessu efni eru að ég tel sextán þúsund pund; og er það upphæðin sem fólk fær?

Árni: Tja, ég vona að það verði tilfellið. Ég get ekki kveðið skýrt úr um það eða tryggt það núna en vissulega vinnum við að því að leysa úr þessu máli. Við viljum sannarlega ekki hafa þetta hangandi yfir höfði okkar.

FT rifjar upp að Darling sagði við BBC Radio 8. október: ,,Íslensk stjórnvöld, hvort sem þið trúið því eða ekki, greindu mér frá því í gær að þau hyggðust ekki standa við skuldbindingar sínar."

FT greinir einnig frá því að það sé trú íslenskra stjórnvalda að fullyrðingar Darlings hafi leitt til þess að óðagot varð í Bretlandi sem leiddi til þess að stærsti banki Íslands, Kaupþing banki, hrundi saman og var þjóðnýttur.

Einnig hafi þetta orðið til þess að bresk stjórnvöld töldu sig knúin til þess að beita hryjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum.