FTSE 100 hlutabréfavísitala var í lok dags í gær 6.224,5 stig og hefur vísitalan ekki verið hærri í meira en fimm ár.

Vísitalan hækkaði í gær um liðlega 76 stig eða 1,2%. Hækkunin er rakin til aðstæðna á vinnumarkaði í Bandaríkjunum en á föstudag voru birtar tölur sem sýndu að bandarískur vinnumarkaður er í uppsveiflu. Alls urðu til 92 þúsund ný störf í Bandaríkjunum í október og hefur atinnuleysi ekki verið lægra í fimm ár. Frá september til október minnkaði atvinnuleysi um 0,2% og er nú 4,4%.

FTSE fór yfir 6.000 stiga múrinn í október en hæst hefur vísitalan farið í 6.930,2 stig, en það var 30. desember 1999. Vísitalan féll hins vegar hratt á mánuðum þar á eftir þegar "netbólan" sprakk.