Fréttastofa Bloomberg metur FTSE 100 markaðinn nú sem bjarnarmarkað. Þetta er rökstutt með þeim staðreyndum að frá því í apríl á síðasta ári hefur vísitala markaðarins farið stöðugt og sífellt lækkandi, eða um rétt rúmlega 20%.

Þá hafa verslunarvörur á borð við hráolíu staðið sig allra verst á tímabilinu, meðan verð gulls stóð sig hlutfallslega best á tímabilinu. Meðal olíufyrirtækja á markaðnum eru Petrofac, BP og Royal Dutch Shell.

Gengi bréfa Royal Dutch Shell hefur lækkað um 43% frá því í apríl, meðan gengi bréfa Petrofac hefur lækkað um 37,75%. Gengi bréfa BP hefur þá lækkað um 31,58%.

FTSE 100 gengur þá í hóp fleiri markaða sem eru metnir til bjarnarmarkaða. Til að mynda hefur vísitala Euro Stoxx 50 markaðarins lækkað um 24% frá apríl á síðasta ári. Auk þess er hlutabréfamarkaðurinn í Tokyo metinn til bjarnarmarkaðar - en frá ágúst síðasta árs hefur TPX-vísitalan lækkað um 20%.