Bygging nýs fangelsis við Hólmsheiði kostar 2,7 milljarða króna, þar af fara 27 milljónir króna til kaupa á listaverkinu Arboretum – trjásafn. Listskreytingar eru lögbundinn hluti opinberra bygginga og því var efnt til samkeppni um listskreytingar í fangelsinu og hlaut listaverkið „Arboterum – trjásafn" fyrstu verðlaun og 500 þúsund krónur í verðlaunafé.

„Þetta margþætta listaverk samanstendur af þyrpingu níu tegunda trjáa sem staðsett verða í aðkomugarði fangelsisins,“ segir á vef Fangelsismálastofnunar. „Gert er ráð fyrir „fuglahóteli“ með tilheyrandi fuglahúsum, sem unnin verða í samvinnu mvið trésmíðaverkstæðið á Litla-Hrauni.“

Höfundar listaverksins eru þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Olga að í raun sé um þrjú listaverk að ræða sem saman myndi eina heilda. Hönnunin á verkunum sé langt komin.

Í fuglahúsunum verður komið fyrir vefmyndavélum og þannig munu fangarnir geta fylgst með fuglalífinu á skjá í bókasafni fangelsisins.

Fyrir tæpri viku síðan gagnrýndi Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, uppsetningu listaverksins og kostnaðinn við það. Hann sagðist almennt mótfallinn því að skylda ríkið til listaverkakaupa. Peningunum væri betur varið í annað.

Manneskjulegt umhverfi

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir stöðuna einfaldlega vera þá að lögbundið sé að verja 1% af byggingarkostnaði í listskreytingar. 27 milljónir króna eru einmitt nákvæmlega 1% af byggingarkostnaði fangelsisins.

„Ég hef svo sem enga sérstaka skoðun á þessu en ef menn vilja breyta þessu þá verður það að gerast inni á Alþingi. Ég vinn eftir þeim reglum sem eru í gildi.“

Páll segir að persónulega lítist honum ágætlega á listaverkið.

„Ég tel mjög mikilvægt að það sé manneskjulegt umhverfi þar sem frelsisviptir menn erum vistaðir. Refsingin er alveg nægjanleg. Fangelsi eiga ekki að auka refsingu manna heldur eru þau til að fullnusta refsingu með eins vægum og manneskjulegum hætti og hægt er — sama hver í hlut á."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .