Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt um að létt verði á fjöldatakmörkunum, grímuskyldu verður aflétt, opnunartími veitingastaða lengdur um klukkustund og skráningarskyldu gesta aflétt en breytingarnar taka gildi á morgun. Hins vegar verður regla um nándarmörk áfram einn metri. Stefnt er að fullri afléttingu samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember.

Almennar fjöldatakmarkanir miða nú við 2.000 manns í stað 500. Opnunartími veitingastaða, þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, verður nú leyfilegur til kl. 01:00 og rýma þarf þarf staði fyrir kl. 02:00.

„Stefnt er að fullri afléttingu allra samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember, með fyrirvara um að faraldurinn þróist ekki verulega á verri veg, svo sem vegna mikillar fjölgunar innlagna á spítala vegna COVID-19 sem heilbrigðiskerfið ræður ekki við,“ segir í tilkynningunni. Áfram verði þó beitt sýnatöku, einangrun, smitrakningu og sóttkví en þessi atriði verði þó til skoðunar í samráði við sóttvarnalækni.