„Það er engin ástæða til að bera blak af kommúnismastjórninni í Kína,“ sagði Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður í umræðu í Silfri Egils rétt í þessu.

Hann sagði að íslenskir stjórnmálamenn ættu að minnast á mannréttindamál í heimsóknum sínum til Kína og það væri full ástæða til að gagnrýna stjórnvöld þar í landi fyrir gróf brot á mannréttindum.

Sigurður Kári sagði að hann hefði fyrir nokkrum árum þegið boð um að fara í heimsókn til Taiwan. Stuttu síðar hefði hann fengið símtal frá kínverska sendiráðinu á Íslandi þar sem hann var hvattur til að fara ekki til Taiwan og sagði Sigurður Kári að það væri ólíðandi að erlend sendiráð fylgdust með ferðalögum íslendinga.