*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 18. janúar 2019 19:03

Full ástæða til að fara varlega

Gylfi Zoëga segir ýmsar hættur við einkarekið bankakerfi, en lausnin sé ekki fólgin í ríkisrekstri.

Júlíus Þór Halldórsson
Gylfi Zoëga er prófessor í hagfræði við HÍ og á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður Peningastefnunefndar, segir í aðsendri grein í Vísbendingu í morgun einkavæðingu banka geta verið varasama.

Í greininni útskýrir hann að eiginleg ríkisábyrgð banka – sem felist í því að eigendur banka hafi yfirleitt getað reitt sig á að ríkið leggi þeim til fjármagn ef mikið tap sé á rekstrinum, og seðlabankinn lausafé sé það af skornum skammti – sé til komin vegna fallvalts eðlis þeirra, og þeirra alvarlegu afleiðinga fyrir samfélagið sem fall þeirra hafi í för með sér. „Þegar kerfislega mikilvægir banka sækja sér lánsfé á erlendum fjármagnsmörkuðum þá njóta þeir þess að starfa í skjóli ríkisvalds sem kemur þeim til aðstoðar ef í harðbakkan slær. Hér skiptir engu máli hvaða yfirlýsingar ríkisstjórn hefur gefið um mögulegan stuðning vegna þess að þegar illa fer í rekstri banka þá verður ríkið að grípa inn í á einn veg eða annan vegna þess að skuldir þeirra eru sparifé landsmanna; auka eigið fé þeirra með beinum fjárframlögum, þjóðnýta eða sameina öðrum bönkum.“

Eina ástæða þess að íslenska ríkið hafi ekki stutt bankana í hruninu sé sú að það hafi einfaldlega ekki haft burði til þess, enda efnahagsreikningur bankanna numið tífaldri landsframleiðslu. Í dag sé staðan hinsvegar önnur: gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans dugi til þess að greiða nær allar erlendar skuldir innlendra viðskiptabanka.

Búa til peninga handa sjálfum sér
Eignarhaldi á banka segir Gylfi geta fylgt umtalsverð hlunnindi í formi þess að eigendur geti lánað öðrum fyrirtækjum í sinni eigu, og búið þannig í raun til peninga handa sjálfum sér.

Þannig séu bankar samtímis mikilvægar stofnanir fyrir þjóðfélagið, og líklegir til að gefa eigendum góðan hagnað í skjóli óbeinnar ríkisábyrgðar. Það sé sú blanda þjóðfélagslegs mikilvægis og hagnaðarvonar eigenda sem geri einkavæðingu banka varasama.

Gylfi segir hinn svokallaða freistnivanda (e. moral hazard) einnig ýta undir áhættusemi bankareksturs, en hann felist í því að stjórnendur banka hafi hvata til að taka áhættu í rekstri vegna hinnar óbeinu ríkisábyrgðar. Afleiðingar mistaka og áfalla lendi yfirleitt að einhverju leyti á öðrum, einkum og sér í lagi lánardrottnum.

Ríkisstyrktur hagnaður og lægri skattar
Gylfi segir freistnivandann einnig gera samtvinnun viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi hættulega, og víkur í sömu andrá að mismunandi skatthlutfalli fjármagns- og atvinnutekna. „Þá geta eigendur banka notað sparifé almennings til þess að fjármagna kaup á fyrirtækjum sem þeir þá öðlast stjórn á í skjóli þess að ríkið komi til hjálpar ef illa gengur. Slík starfsemi felur þá í sér ríkisstyrkta fjárfestingabankastarfsemi einkaaðila sem halda öllum hagnaði eftir þegar vel gengur og greiða lægri skatta í formi fjármagnstekjuskatts en launafólk þarf að greiða af launum sínum þótt hagnaðurinn sé ríkisstyrktur.“

„Þjóðnýting og ríkisrekstur leysir ekki vandann“
Þrátt fyrir ýmsar hættur við einkarekstur banka segir Gylfi ríkiseign- og rekstur þó ekki lausnina. Slíkt kerfi hafi verið við lýði hér um árabil og ekki gefist vel. Aðalmálið sé að bankarnir séu vel reknir. „Eigendur einkarekinna banka geta hagnast af rekstri þeirra í skjóli ríkisábyrgðar og notað þá til þess að búa til peninga. En þjóðnýting og ríkisrekstur leysir ekki vandann.“

„Dæmi voru um að sömu aðilar væru í stjórn bankanna og þeirra fyrirtækja sem voru meðal helstu viðskiptavina bankanna. Og stundum voru þessir stjórnarmenn einnig stjórnmálamenn. Stjórnmál, bankastarfsemi og fyrirtækjarekstur tengdust þá nánum böndum. Ríkisbankarnir urðu oft uppiskroppa með eigið fé þegar lánsfé glataðist, hinir pólitískt tengdu aðilar stóðu ekki í skilum, og þurftu þá á stuðningi ríkissjóðs að halda.“

Gylfi segir mikilvægt að rétt sé staðið að einkavæðingu bankanna, og þeir endi í góðum höndum. „Það er full ástæða til þess að fara varlega þegar ríkisbankar eru seldir einkaaðilum. Þeir sem vilja greiða hæsta verðið fyrir bankann, sækjast mest eftir því að verða eigendur, eru oft þeir sem síst eru til þess fallnir að eiga og reka banka.“

Hann ítrekar þó í lokin að sé rétt að málum staðið geti bankar skipt sköpum fyrir gang efnahagsmála og lífskjör landsmanna. „Vel reknir bankar eru mikilvægir fyrir hagkerfið. Þeir miðla fjármagni til þeirra fyrirtækja sem hafa góð fjárfestingatækifæri, fylgjast með rekstri þeirra og umbuna þeim fyrir að standa í skilum. Með því að  láta fjármagn fara til þeirra atvinnugreina og fyrirtækja þar sem því er best varið stuðla bankarnir að bættum lífskjörum og hagvexti. En þegar eigendur lána sjálfum sér, vinum eða flokksmönnum og taka áhættu á kostnað skattgreiðenda þá er voðinn vís.“

Stikkorð: Gylfi Zoega bankar