Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur þegar maður heyrir svona sverar yfirlýsingar sem fljúga milli aðilanna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um kjaraviðræður milli aðila vinnumarkaðarins en um 80 kjarasamningar losna um áramótin.

„Annars vegar sjáum við mjög skerta samkeppnisstöðu atvinnuveganna en á hinn bóginn mikla ólgu hjá stéttarfélögum.“ Í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 eru breytingar á skatta- og bótakerfinu sem vonast er til að geti liðkað fyrir komandi kjaraviðræðum.

„Þegar menn leggja saman þær aðgerðir sem við erum að grípa til eru þær mjög í samræmi við þær áherslur sem við höfum heyrt frá aðilum vinnumarkaðar. Það á bæði við um  tryggingagjaldið  og hækkun persónuafsláttar, breytingar á viðmiðunarvísitölu fyrir efra og neðra fjárhæðarþrep tekjuskatts og sömuleiðis hækkun barnabóta.“ Bjarni leggur hins vegar áherslu á að það sé aðilanna sjálfra að ná saman um kaup og kjör.„En við leggjum gott til með þessu.“

Lagt er til að persónuafsláttur hækki um 4% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem er einu prósentustigi meiri hækkun en lögbundin hækkun í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs. Þá verður hækkun á mörkum efra tekjuskattþreps einstaklinga einnig miðuð við vísitölu neysluverðs en undanfarin ár hefur verið miðað við vísitölu launa og því hækkað hraðar en skattleysismörkin. Þá er einnig ráðgert að hækka barnabætur um 16% og vaxtabætur um 13%.