Samkaup og Pósturinn hafa gert með sér samstarfssamning um póstþjónustu í 21 verslun Samkaupa um land allt. Samkomulagið felur í sér að sex verslanir Samkaupa bjóða upp á fulla póstþjónustu. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Í fimm verslunum verður hægt að nálgast pakkasendingar í Pakkaportum og í tíu verslunum verður komið upp sjálfsafgreiðslu Póstboxum þar sem hægt er að nálgast pakkasendingar allan sólarhringinn. Markmiðið er að tvöfalda afhendingarstaði Póstsins á næstu mánuðum.

Sjá einnig: Pósturinn fer færeysku leiðina

„Við erum gríðarlega stolt af samstarfinu við Póstinn því nú getum við boðið viðskiptavinum okkar upp á enn betri nærþjónustu, sem er eitt af megin markmiðum Samkaupa. Nú er hægt að gera innkaupin og sækja póstsendingar á einum og sama staðnum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

„Samkaup er leiðandi matvöru-verslana á Íslandi í netverslun og tækni og þetta er enn ein nýjungin í þeim efnum. Samstarfið opnar einnig á ýmsa möguleika til framtíðar litið þar á meðal afhendingu á lyfjum, áfengi og fleiru.“