SAFE Seat er fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjó­ lagi. Viðskiptahugmyndin vann Gulleggið nýverið og eru aðstandendur verkefnisins þeir Svavar Konráðsson, Birgir Birgisson og Páll Einarsson, en þeir unnu áður saman hjá bátasmiðjunni Rafnar.

Birgir segir að hugmyndin hafi sprottið upp úr samstarfi þremenninganna. „Við sáum að það vantaði betri lausn þegar kemur að bátasætum. Ástæðan er sú að lausnirnar sem þegar eru til eru yfirleitt mjög flóknar og óþarflega dýrar í framleiðslu og þar af leið­ andi líka í innkaupum hjá bátaframleiðendum. Við duttum sem sagt niður á gat á markaðnum,“ segir hann.

„Almennt sagt leitar vara alltaf að sinni einföldustu mynd. Við erum á því að fjaðrandi bátasæti hafi ekki náð því stigi enn og erum þarna með tillögu í þá átt. Þannig varð hugmyndin til, en svo hefur útfærslan tekið nokkrum breytingum í okkar með­ höndlun.

Fyrstu prófanir gáfu okkur það jákvæða mynd að við ákváð­ um að fara með sætið alla leið á markað. Við höfum smíðað frumgerðir og gert nokkrar tilraunir og prófanir. Vonir standa til að við klárum þróunarvinnuna núna á sumarmánuðum og prófum sætið um borð í nokkrum bátum,“ bætir Birgir við.

Ekki sætisframleiðendur til eilífðar

Félagarnir stofnuðu hönnunar­þjónustuna Driftwood fyrir rúmum tveimur árum. „Hugmyndin sprettur eiginlega upp úr því samstarfi en við ætlum okkur ekki að vera sætisframleiðendur til eilífðar. Við leyfum okkar verkefnum svolítið að lifa eigin lífi,“ segir Birgir. Hann tekur einnig fram að þeir félagar vilji í framtíðinni halda áfram að finna ný vandamál til að leysa. Stundum koma fyrirtæki með vandamál inn á borð Driftwood en aðrar lausnir hafa sprottið upp úr pælingum og umræðum á milli félaganna þriggja.

„Draumur okkar með Driftwood er að finna alltaf nýtt vandamál til að leysa, svo taki aðrir við þegar viðskiptahugmyndin er farin á flug. Við erum nú þegar með tvær eða þrjár aðrar hugmyndir sem gætu farið inn á mjög svipaðan markað og byggt á svipuðum forsendum, sem sagt því að það er gat í markaði þar sem vantar nýja lausn. Þess vegna viljum við drífa sætið áfram og klára það, til að geta farið sem fyrst í næsta verkefni,“ bætir Birgir við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .