Seðlabanki Íslands lagðist hressilega á móti styrkingu krónunnar bæði í desember og það sem af er janúar og hefur safnað í óskuldsettan gjaldeyrisforða með kaupum á gjaldeyri.  Greiningadeild segir að ekki sé vanþörf á, enda séu erlendar skuldir á efnahagsreikningi Seðlabankans miklar og meiri en erlendar eignir.

Krónan hefur styrkst töluvert undanfarnar vikur, eða um 5,1% frá veikasta gildi sínu í nóvember gagnvart evru og um álíka mikið gagnvart viðskiptaveginni myntkörfu. Krónan er nú nokkuð sterk miðað við þróun síðustu ára.

Greining bendir þó á að endurgreiðsluferill erlendra lána ríkissjóðs og Seðlabanka sé hinsvegar hæfilega afturhlaðinn. Það sé því ekki aðkallandi vandamál þótt erlend staða bankans sé neikvæð. Seðlabankinn hljóti þó að þurfa að halda áfram á sömu braut gjaldeyriskaupa ef ekki á að horfa til vandræða við endurgreiðslur erlendra lána þegar fram líða stundir.