*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 27. ágúst 2017 13:10

Fullkomin óvissa á Grundartanga

Fyrstu áætlanir forsvarsmanna Silicor Materials miðuðu við að verksmiðjan yrði gangsett árið 2016.

Trausti Hafliðason
Lóð Silicor Materials er skammt frá álveri Norðuráls.

Rætt hefur verið um fyrirhugaða verksmiðju Silicor Materials, sem hluta af kísilvæðingu landsins. Verksmiðja Silicor á Grundartanga er hins vegar frábrugðin hinum þremur (United Silicon, PCC á Bakka og Thorsil) að því leyti að þar á að framleiða svokallaðan sólarkísil. Með sérhæfðum búnaði á að hreinsa kísilmálm, sem er afurðin sem hinar þrjár verksmiðjurnar framleiða, þannig að til verði 99,9999% hreinn kísill.

Af þeim fjórum kísilverkefnum, sem nefnd hafa verið, er bygging sólarkísilverksmiðju Silicor Materials það langstærsta. Áætlaður kostnaður við byggingu 19 þúsund tonna verksmiðju er um einn milljarður dollara eða um 106 milljarðar króna. Gert hefur verið ráð fyrir því að lánsfjármögnun undir forystu Þróunarbanka Þýskalands KfW standi að baki 60% af heildarkostnaði við byggingu verksmiðjunnar.

Líkt og hjá Thorsil þá hefur fjármögnunin hjá Silicor Materials gengið hægt. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ein helsta ástæðan fyrir því að ekki er búið að klára fjármögnunina sú að  Þróunarbanki Þýskalands KfW gerir mjög stífar kröfur. Hann gerir kröfu um að strategískur iðnaðarfjárfestir verði í hópi fjárfesta. Það er ekki nóg að fá til dæmis lífeyrissjóði eða fjárfestingarsjóði til að klára dæmið — það skiptir sem sagt máli hverjir fjárfesta. Í tilfelli Silicor Materials væri strategískur iðnaðarfjárfestir til dæmis fyrirtæki á hrávörumarkaði.

Í mars árið 2015 samdi Silicor Materials við þýska stórfyrirtækið SMS Siemag um kaup á öllum tækjum og vélum í verksmiðjuna. Samningurinn er metinn á 70 milljarða króna. Í júní sama ár var síðan skrifað undir samning við danska verktakafyrirtækið MT Højgaard um byggingu verksmiðjuhúss en sá samningar er metinn á tæplega 30 milljarða króna.

Í september árið 2015 sendi Silicor Materials frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að lokið væri við fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilverksmiðjunnar með 14 milljarða króna hlutafjársöfnun. Sunnuvellir slhf, félag í eigu íslenskra lífeyrissjóða og fagfjárfesta, lögðu 6 milljarða í verkefnið. Fjárfestingarsjóðurinn Hudson Clean Energy Partners, aðaleigandi Silicor, og þýska stórfyrirtækið SMS Siemag, lögðu samtals 8 milljarða í verkefnið.

Á vormánuðum 2015 var lóðasamningur við Faxaflóhafnir undirritaður. Samningurinn átti að taka gildi ári síðar en forsvarsmenn Silicor hafa tvisvar fengið gildistökunni frestað. Það gerðist síðast í janúar á þessu ári en þá fékk Silicor frest þar til nú í september.

Spurning um umhverfismat

Það eru ekki einungis vandræði við fjármögnun sem hafa tafið Silicor því í sumar felldu dómstólar úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að bygging verksmiðjunnar væri ekki háð umhverfismati. Skipulagsstofnun þarf því að taka málefni Silicor Materials aftur til skoðunar og meta hvort verksmiðjan þurfi að fara í umhverfismat. Ef niðurstaðan verður sú að fara þurfi í umhverfismat þá tekur sú vinna  að minnsta kosti eitt ár. Heimildir Viðskiptablaðsins herma, að vegna andstöðu Kjósahrepps, Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og fjölda einstaklinga við verkefnið, væri líklega farsælast fyrir forsvarsmenn Silicor að ákveða sjálfir að fara með verkefnið í umhverfismat.

Fyrstu áætlanir forsvarsmanna Silicor Materials miðuðu við að verksmiðjan yrði gangsett árið 2016. Síðan var talað um að hefja framleiðslu árið 2017 og þegar ljóst var að það gengi ekki eftir var talað um gangsetja verksmiðjuna árið 2018. Nú liggur fyrir að það mun ekki ganga eftir og eins og staðan er í dag er ekki vitað hvenær verksmiðjan hefur rekstur.

Ef af þessu verkefni verður þá er lang líklegast að byggð verði töluvert minni verksmiðja en upphaflega stóð til — verkefnið verði minnkað um allt að helming og fjármagnað alfarið með eigið fé.Ef þessi leið yrði farin væri fyrirtækið ekki bundið af því að ræða við iðnaðarfjárfesta. Þessi leið myndi líka leysa annan vanda en hann er sá að Silicor er í dag einungis búið að tryggja sér helming af þeirri orku sem þarf til að knýja 19 þúsund tonna verksmiðju.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is