Í fyrra var gerð grundvallarbreyting á skipan stjórn Úrvinnslusjóðs með lögum nr. 63/2014. Fyrir breytingarnar skipaði umhverfisráðherra formann stjórnar án tilnefningar, en fimm meðstjórnendur, einn frá hverjum samtökum, voru skipaðir að fenginni tilnefningu SFS, SI, SVÞ, FA og SÍS. Með lögunum sem tóku gildi 1. janúar sl. var fulltrúi SFS felldur út úr stjórninni og fulltrúi SÍS tók sæti hans. Þá voru tveir frá SÍS í stjórn og fulltrúar atvinnulífsins höfðu ekki lengur meirhluta í nefndinni, sem var þvert á upprunalegu lögin um úrvinnslugjald.

SÍS fullyrti að grundvöllur umræddra breytinga væru að SFS hefði samið sig undan gildissviði laganna. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það sé rangt. „Samtökin sömdu sig ekki undan gildissviði laganna á nokkurn hátt né óskuðu þau þess að vera undanskilin gildissviði þeirra. Það rétta í málinu er að SFS hafa gengið til samninga við m.a. Úrvinnslusjóð um framkvæmd og fyrirkomulag einstakra verkefna og eftirfylgni með opinberum kröfum á þessum vettvangi.“

Í kjölfar breytinganna skoruðu fulltrúar atvinnulífsins á umhverfis- og auðlindaráðherra að skipan stjórnar yrði færð í fyrra horf og myndi framvegis vera í samræmi við framleiðendaábyrgð, þ.e. að fulltrúar atvinnulífsins skipi ávallt meirihluta stjórnar sjóðsins. Stjórnin varð óstarfhæf í janúar þegar fulltrúar atvinnulífsins höfnuðu að skipa í stjórnina fyrr en búið væri að leysa úr málinu.

Hið einkennilegasta mál

Ólafur segir að þetta mál endurspegli augljósa tilhneigingu opinberra aðila til að ná meiri tökum á sjóðum sem eru alls ekki þeirra. Hann bendir einnig á tilhneigingu í íslenskri stjórnsýlsu að Alþingi breyti stundum lögum á grundvelli mjög ónógra upplýsinga og óvandaðra skoðunar hjá þingnefndum á hvað býr að baki. „Allt var þetta í rauninni hið sérkennilegasta mál og einkennilegt hvað þingið og þingnefndin voru treg til að gera breytingar. Formaður umhverfis- og samgöngunefndar hélt því einnig fram í samtölum við fulltrúa atvinnulífsins að frumkvæði að breytingum til baka þyrfti að koma frá ráðuneytinu þó ráðuneytið hefði hvergi komið að klúðrinu,“ segir Ólafur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .