Í lok janúar átti Íbúðalánasjóður 1.873 fullnustueign og hefur þeim fækkað um 18 eignir frá því mánuðunum þar á undan. Í janúar seldi sjóðurinn 26 eignir og 8 nýjar fullnustueignir bættust við eignasafnið. Kemur þetta fram í mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir janúar.

Til viðbótar þeim 26 eignum sem seldar voru í mánuðinum þá hefur Íbúðalánasjóður samþykkt kauptilboð í 42 eignir og vinna nú tilboðshafar að fjármögnun þeirra. Í lok janúar voru 913 eignir í sölumeðferð, flestar þeirra eru þegar komnar á sölu hjá fasteignasölum.

Í lok janúar voru 872 íbúðir í leigu hjá eignasviði Íbúðalánasjóðs og eru þessar eignir um land allt. Langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Um 75% þeirra fullnustueigna sem bætast við eignasafnið fara í leigu á þennan hátt, að því er segir í skýrslunni.

Eignir sjóðsins eru leigðar út á markaðsverði og er miðað við sambærilegar eignir í útleigu eftir staðsetningu, stærð, aldri o.fl. Af þeim 1.873 eignum sem Íbúðalánasjóður átti í lok janúar hefur 1.803 eignum verið ráðstafað í leigu, sölumeðferð eða í vinnslu. Þá biðu 70 eignir frekari greiningar og fara þær ýmist í sölu eða leigu.