Hæstiréttur fjölgar dómendum úr fimm í sjö sem dæma í máli þrotabús Landsbankans gegn fyrirtækinu Mótormax 6. júní nk. Málaflutningur fyrir Hæstarétti var 5. maí og búist var við dómi innan skamms, þá var réttur skipaður fimm dómurum.

Nú hefur óvænt tilkynning borist um að efnt verði til annars málaflutnings í Hæstarétti 6. júní og þá verður réttur fullskipaður með sjö dómurum.

Er þetta í fyrsta skipti í sjö ár síðan Hæstiréttur er með mesta mögulega fjölda dómara. Það að nýr málaflutningur muni eiga sér stað og dómur Hæstaréttar verði fullskipaður þykir til marks um alvarleika málsins. Tapist mál Landsbankans mun dómurinn hafa mikið fordæmisgildi fyrir önnur fyrirtæki í landinu. Jafnframt yrðu afleiðingar gríðarlegar fyrir stöðu Landsbankans ef niðurstaðan verði notuð um önnur fyrirtæki með samskonar lán hjá bankanum.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum er allt að 80% erlendra lána til fyrirtækja með eins lán og Mótormax. Verði öll erlend lán af þessum toga talin ólögmæt, yrðu neikvæð áhrif á eignastöðu bankans að hámarki um 16 milljarðar króna.

64% munur á kröfunum

Dómsmálið varðar fyrirtækjalán upp á 150 milljónir króna í myntkörfu sem Landsbankinn veitti Mótormax árið 2007. Sumarið 2009 varð Mótormax gjaldþrota og gerði Landsbankinn 276 milljóna kröfu í þrotabúið.

Skiptastjóri þrotabúsins taldi að lánið væri íslenskt og ætti að lækka til samræmis við dóm Hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu sem þá var nýfallinn. Krafan ætti því að nema 168 milljónum króna, sem er 64% lægri upphæð en krafa Landsbankans. Þótti Landsbankanum það óásættanlegt og stefndi þrotabúi Mótormax. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og endurgreiðslan hafi átt að vera í krónum benti það ótvírætt til þess að lánið væri í íslenskum krónum. Þá áfrýjaði Landsbankinn málinu til Hæstaréttar.