Fullt skip af rússafiski kemur til Raufarhafnar í næstu viku eins og kemur fram í frétt á heimasíðu Brims. "Það má segja að þetta hafi sloppið fyrir horn, en framboð af hráefni hefur verið með minna móti að undanförnu. Ástæðan er bæði brælur hér á heimamiðum og einnig að veruleg töf hefur orðið á því að við fengjum rússafisk til vinnslu," segir Magnús Einarsson, verkstjóri í saltfiskvinnslun GPG á Raufarhöfn, en þar eru unnin svokölluð léttsöltuð þorskflök fyrir Spánarmarkað.

"Við áttum að fá skip með rússafiski fyrir hálfum öðrum mánuði, en vegna m.a. erfiðrar tíðar norður í Barentshafi hefur það tafist þetta mikið. En þetta stendur til bóta því að í næstu viku er von á skipi með 300-350 tonnum af þorski," segir Magnús. "Við höfum fengið fisk af bátum hér heima, frá Húsavík og einnig hefur línubáturinn Straumur lagt upp hjá okkur. Linufiskurinn er mjög góður í þessa vinnslu, hann er hvítari í holdið. Auk þess höfum við keypt fisk á markaði. Við höfum því getað náð saman endum þannig að við höfum náð að halda uppi fullri vinnslu," segir Magnús, en í viku hverri fara á bilinu 50 til 60 tonn af hráefni í gegnum vinnslu GPG á Raufarhöfn.

Byggt á frétt á heimasíðu Brims.