Hanna Birna Kristjánsdóttir segist lengi hafa verið þeirra skoðunar að taka þurfi lög um mannanöfn til endurskoðunar til að auka frelsi og ákvörðunarvald hvers og eins. Þetta segir Hanna Birna í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um það hvort til standi að breyta lögum um mannanöfn.

Mál Harrietar Cardew hefur vakið heimsathygli eftir að í ljós kom að Þjóðskrá myndi synja henni um vegabréf. Ástæðan er sú að mannanafnanefnd samþykkir ekki nafn hennar. „Það er búið að svipta dóttur okkar ferðafrelsi. Það stenst engan veginn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ sagði móðir hennar, Kristín Cardew, í samtali við Vís i á dögunum vegna þessa og var augljóslega ósátt.

Hanna Birna segir að í skoðun sinni felist ekki ákvörðun um nákvæmlega hvernig það skuli endurskoða lög um mannanöfn, en íslenskur raunveruleiki og fjölmörg dæmi gefi fullt tilefni sé til að endurskoða og rýmka lög um mannanöfn. „Alveg eins og okkar fallega tungumál er lifandi og í sífelldri þróun, er eðliegt að það sama gerist með nafngiftir. Hér er rétt að stjórnvöld setji sem minnstar takmarkanir og hindranir, en treysti einstaklingum og foreldrum til að vita best hvað þetta varðar,“ segir Hanna Birna í svari við fyrirspurninni.