*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 5. mars 2021 15:24

Fulltrúa Viðreisnar hent úr stjórn

Ein breyting varð á stjórn Íslandspósts á aðalfundi í dag. Sérfræðingur úr ráðuneyti kom í stað fulltrúa stjórnmálaflokks.

Jóhann Óli Eiðsson
Stjórnarmenn Íslandspósts árið 2020.
Íslandspóstur

Thomasi Möller, fulltrúa Viðreisnar í stjórn Íslandspósts, var skipt út úr stjórn félagsins á aðalfundi félagsins sem fram fór fyrr í dag. Í hans stað var skipaður Guðmundur Axel Hansen, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í gær að óljóst væri hvort óbreytt stjórn yrði fram að kosningum sem fram fara í haust. Venjubundið er að „d‘Hondt-að“ sé í stjórnir opinberra hlutafélaga á þann veg að ríkisstjórnarflokkar skipi meirihluta stjórnar en stjórnarandstaða skipti öðrum milli sín. Samkvæmt heimildum blaðsins var þrýst á tvo flokka að íhuga að skipta út stjórnarmönnum sínum.

Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Íslandspósts og varaþingmaður Vinstri grænna, hafnaði því í samtali við Morgunblaðið í gær að hafa rætt við aðila innan stjórnarinnar um það að ryðja brott óþægum stjórnarmönnum og fá aðra í staðinn. „Stjórnin hefur unnið vel saman í erfiðu verkefni. Hún hefur gert kraftaverk með fyrirtækið síðustu misseri,“ sagði hann við Morgunblaðið.

Fimm manna stjórn Póstsins var kjörin á aðalfundi og missti Thomas Möller, tilnefndur til stjórnarsetu af Viðreisn, sem fyrr segir sæti sitt. Í hans stað var skipaður sérfræðingur úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Að öðru leyti er stjórnin óbreytt.

Stikkorð: Íslandspóstur