*

laugardagur, 15. maí 2021
Erlent 19. desember 2019 12:05

Fulltrúadeildin ákærir Trump

Atkvæði féllu nánast alfarið eftir flokkslínum. Næsta víst er að Trump verði sýknaður í öldungadeildinni.

Júlíus Þór Halldórsson
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er nú þriðji forseti í sögu Bandaríkjanna til að vera ákærður af þinginu.
epa

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti formlega ákæru í tveimur liðum á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta í nótt. Atkvæði féllu nánast alfarið eftir flokkslínum, en demókrataflokkurinn er með meirihluta í deildinni. Trump er þriðji forseti í sögu Bandaríkjanna til að vera ákærður.

Eftir um 10 tíma umræðu í þinginu í gær var loks gengið til atkvæðagreiðslu klukkan hálf 9 að staðartíma – hálf 2 í gærnótt að íslenskum tíma.

Fyrri ákæruliðurinn er misnotkun valds, vegna meintrar tilraunar Trump til að beita úkraínsk yfirvöld þrýstingi um að tilkynna rannsókn á hendur pólitísks andstæðings síns og hugsanlegs forsetaefnis demókrata, Joe Biden.

Trump er sakaður um að hafa haldið eftir greiðslu til Úkraínu sem þingið hafði samþykkt, og gert yfirvöldum þar í landi ljóst að hún myndi ekki berast fyrr en tilkynnt yrði um rannsóknina. Tveir þingmenn demókrata greiddu atkvæði gegn ákæruliðnum, og allir þingmenn repúblíkana, en hún var samþykkt með 230 atkvæðum gegn 197.

Seinni ákæruliðurinn er að hindra framgang rannsóknarinnar, fyrir að hafa verið ósamvinnuþýður og neitað að afhenda ýmis gögn, auk þess að meina aðstoðarmönnum sínum að bera vitni. Sá ákæruliður var samþykktur með 229 atkvæðum gegn 198, en einn þingmaður demókrata kaus með fyrri liðnum en gegn þeim seinni.

Næsta víst að öldungadeildin sýkni
Næsta skref er að fulltrúadeildin – neðri deild þingsins – sendi ákæruna til öldungadeildarinnar, sem síðan tekur málið fyrir og kveður upp dóm sinn. Verði niðurstaðan sakfelling missir Trump forsetaembættið.

Sú niðurstaða er þó svo til óhugsandi eins og sakir standa. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til sakfellingar, og repúblíkanar eru í meirihluta í efri deildinni. Að auki hefur Mitch McConnell, leiðtogi öldungardeildarþingflokks repúblíkana, sagst munu flýta réttarhöldunum eins og hægt er, og hyggst ekki kalla til nein vitni.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi demókrata þar, hefur á móti ýjað að því að henni liggi ekkert á að senda ákæruna formlega upp til öldungadeildarinnar, heldur muni hún bíða eftir að reglur réttarhaldanna skýrist, til að sjá hvort líklegt sé að málið fái sanngjarna meðferð þar.

Stikkorð: Trump Donald