*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Erlent 27. september 2019 07:34

Fulltrúi Þýskalands í ECB hættir

Talsmaður Þjóðverja í peningastefnunefnd Evrópska seðlabankans hættir. Peningastefnan of slök.

Ritstjórn
Seðlabanki Evrópu.
AFP

Sabine Lautenschläger hefur sagt sæti sínu lausu í peningastefnunefnd Evrópska Seðlabankans. Frá þessu greinir í Financial Times sem segir afsögnina til marks um að lengra sé á milli skoðana helstu stjórnenda bankans. 

Beðið er með töluverðri eftirvæntingu hver verði valin í stað Lautenschläger til að tala máli í Þjóðverja í seðlabankanum, en hávær gagnrýni á lausatök bankans við stjórn peningamála hefur átt sér stað í Þýskalandi að undanförnu. 

Ekki er greint frá ástæðu afsagnarinnar í tilkynningu frá evrópska Seðlabankanum, en heimildir Financial Times herma að andstaða hennar við síðustu ákvarðanir um lækkun vaxta hafi ráðið úrslitum. 

Sabine Lautenschläger hefur átt sæti í peningastefnunefndinni frá upphafi árs 2014. Hún var eina konan af 25 nefndarmönnum og verður því nefndin eingöngu skipuð körlum þar til Christine  Lagarde tekur við sem nefndarformaður og seðlabankastjóri þann 1. nóvember næstkomandi. 

Stikkorð: Evrópski seðlabankinn