Framleiðsla er hafin á álvírum í steypuskála Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Þegar álverið verður komið í fullan rekstur mun um fjórðungur álframleiðsunnar verða notaður til framleiðsu á álvírum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaáls.

Fyrstu gámarnir með vírum fara utan í næstu viku en gert er ráð fyrir að allt að 90.000 tonn af vír verði send á markað á ári hverju. Vírarnir verða notaðir í háspennustrengi í líkingu við strengina sem flytja raforku frá Kárahnjúkavirkjun að álverinu.

„Það er mjög gaman að segja frá því að fullvinnsla áls sé nú að hefjast hjá okkur í Fjarðaáli. Það er mikil eftirspurn eftir álvír á heimsmarkaði og fyrir hann fæst gott verð þannig að víraframleiðslan mun skapa töluverðan virðisauka fyrir fyrirtækið.” sagði Ormarr Örlygsson, framkvæmdastjóri málmvinnslu hjá Alcoa Fjarðaáli.

Um 20 manns munu starfa við víraframleiðsluna eingöngu. Vélasamstæðan sem vírinn er framleiddur í er í raun sjálfstæð verksmiðja inni í álverinu og kemur frá ítalska fyrirtækinu Continuus Properzi. Vélin tekur við bráðnu áli, steypir það í álstöng sem síðan er völsuð í 9-28 millimetra vír. Vírinn er síðann undinn upp í hespur sem hver hefur að geyma allt að 20 km langan vír og vegur um 3,6 tonn. Samstæðan getur framleitt vír samfleytt í í þrjá sólarhringa.

Auk álvíra framleiðir Alcoa Fjarðaál hreint gæðaál og ýmiskonar álblöndur fyrir margvíslega iðnaðarframleiðslu, þar á meðal fyrir bifreiðaiðnaðinn.