Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segist þess fullviss að Assad, forseti Sýrlands, og stjórnvöld í Sýrlandi beri ábyrgð á efnavopnaárás sem var gerð hinn 21. ágúst og varð 1400 manns að bana. Hann segir þó að það sé hvers ríkis innan Atlantshafsbandalagsins að taka ákvörðun um hvort það styðji árás á Sýrland.

„Ég get sagt ykkur það að ég er sannfærður um, ekki einungis það að efnavopnaárás var gerð, heldur einnig að sýrlensk stjórnvöld bera ábyrgð á henni,“ sagði Fogh Rasmussen á blaðamannafundinum.

Breska þingið kaus gegn tillögu Davids Cameron í síðustu viku um árás á sýrlensk stjórnvöld. Hugsanlegt er að Frakkar muni taka þátt í árás, með Bandaríkjamönnum. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er þessa dagana að freista þess að ná stuðningi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings við árásirnar.