Neytendastofa úrskurðaði að fullyrðing Skeljungs um „ókeypis þjónustu" væri lögbrot.

Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís) kvartaði til neytendastofu vegna auglýsinga Skeljungs hf. sem varða „ókeypis þjónustu“ á bensínstöðvum Shell. Að mati Olís brjóta auglýsingarnar í bága við ákvæði um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Málavextir eru þeir að að um nokkurt skeið hafi Skeljungur haft uppi auglýsingar í strætisvagnaskýlum á höfuðborgarsvæðinu sem auglýstu ókeypis þjónustu þar sem að neytendur greiði sama verð fyrir afgreiðslu þar sem starfsmaður dælir fyrir viðkomandi og í sjálfsafgreiðslu.

Olís segir orðalagið um „ókeypis þjónustu“ vera villandi og fullyrðingin einfaldlega röng og brjóti í bága við lög nr. 57/2005. Í auglýsingunum sé fullyrt að um sé að ræða „ókeypis þjónustu“ en jafnframt að greiða þurfi sama verð og í sjálfsafgreiðslu Það orki tvímælis að greiða fyrir eitthvað sem sé ókeypis.

Einnig kom fram í kvörtuninni að þjónustutíminn sé takmarkaður á þeim tíu stöðvum sem Skeljungur auglýsi „ókeypis  þjónustu“. Því liggi fyrir að þegar viðskiptavinur komi fyrir eða eftir þennan tíma sé  engin „ókeypis þjónusta“ í boði og dæli hann sjálfur á hæsta sjálfsafgreiðsluverði.

Neytendastofa úrskurðaði að Skeljungur hf. hafi með auglýsingum sínum um „ókeypis þjónustu“ brotið gegn ákvæðum 5. gr., 2. mgr. 6. gr., 8. gr. og 14. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, auk ákvæðis 20. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 160/2009, um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Hins vegar féllst Neytendastofa ekki á það að orðalag aug­lýs­inga Skelj­ungs gefi í skyn að þjón­ust­an sé veitt á öll­um bens­ín­stöðvum Shell.

Lesa má ákvörðunina í heild sinni hér .