Fullyrt er í breska blaðinu The Times í gær að BHP Billiton, stærsta námuvinnslufyrirtæki heims, hyggist leggja fram yfirtökutilboð í bandaríska álfyrirtækið Alcoa. Tilboðið mun nema fjörtíu milljörðum Bandaríkjadala en Alcoa lagði fram á dögunum ríflega þrjátíu milljarða dala tilboð í kanadíska álfyrirtækið Alcan.

Fram kemur í fréttinni að forráðamenn BHP Billiton hafi íhugað að leggja fram tilboð í Alcoa í febrúarmánuði en á endanum var fallið frá því. Sagt er að samfara mannabreytingum á yfirstjórn fyrirtækisins hafi málið komist á ný á dagskrá. Hinsvegar er þess getið í fréttinni að málið sé á frumstigi og að forráðamenn BHP Billiton hafi ekki sett sig í samband við forráðamenn Alcoa með formlegum hætti. The Times hefur jafnframt eftir talsmanni námuvinnslufyrirtækisins að fyrirtækið tjái sig ekki um orðróm á markaði en bætti þó við að það væri skylda stjórnenda þess að vera með augum opin fyrir mögulegum fjárfestingartækifærum.

Sem kunnugt er var ríflega þrjátíu milljarða dala tilboði Alcoa í Alcan hafnað á dögunum. Hinsvegar telja margir sérfræðingar að þeim málum sé ekki lokið og von sé á frekari samþjöppun meðal álvinnslufyrirtækja.