Forráðamenn Glitnis [ GLB ] hafa átt í frumviðræðum við erlenda fjárfesta um hugsanleg kaup á hlut í bankanum. Þetta er fullyrt í frétt á vef Financial Times í dag.

Það er blaðamaðurinn David Ibison sem er skráður fyrir fréttinni en hann hefur mikið fjallað um íslenskt efnahagslíf undanfarin misseri.

Í greininni er leitt að því líkum að mögulegir kaupendur yrðu annaðhvort fjárfestar sem hefðu komið auga á strategíska möguleika með kaupum í Glitni eða þá vogunarsjóðir eða einkafjárfestingasjóðir (e. private equity groups) sem teldu að gengi hlutabréfa hans of lágt og að gengi krónunnar myndi jafnframt styrkjast.

Financial Times hefur eftir Lárusi að það væri trú Glitnis að alþjóðlegir fjárfestar sjái nú tækifæri á Íslandi þar sem að gengi hlutabréfa hefur fallið samhliða veikingu krónunnar.

Fram kemur í greininni að fréttirnar að viðræðum bankans komi á sama tíma og tilkynnt hafi verið um útgáfu sérvarinna skuldabréfa að upphæð 7 milljarðar norskra króna (109 milljarðar íslenskra króna).

Skuldabréfin eru 25 til 55 punktum fyrir ofan vexti á norska millibankamarkaðnum, en þeir stóðu í 6,42%  í dag.

Eins og fram kemur í fréttinni þá þykir fjármögnunin dýr en að sama skapi gæti hún orðið til þess að minnka áhyggjur fjárfesta um mögulegt getuleysi Glitnis þegar kemur að því að sækja fé á fjármagnsmarkaði.

Sjá frétt Financial Times.