Norski leikjaframleiðandinn Funcom er sagður þurfa að fresta útgáfu á fjölspilartölvuleiknum The Secret World. Netverjar bera miklar væntingar til leiksins en þegar opnað var fyrir prufuútgáfu leiksins fyrir tíu dögum höfðu ein milljón manna skráð sig til leiks og var það langt umfram björtustu vonir. Gert er ráð fyrir því að leikurinn komi á markað í júlí, samkvæmt fregnum norska netmiðilsins E24.no .

Leikurinn hefur verið í smíðum hjá Funcom um nokkurt skeið en forsvarsmenn fyrirtækisins boðuðu árið 2007 að hann væri í smíðum.

Eins og leikasérfræðingar fjalla um leikinn þá er hann samblanda af þjóðsögum, goðsögnum og slúðri. Þeir sem spila leikinn ganga í hlutverk ofurhetja sem berjast í svo að segja eilífu stríði á milli góðra aflra og vonda og koma þar fyrir bæði skrímsli, vampírur og aðrir skrattakollar. Baráttan á sér stað bæði í þekktum heimsborgum á borð við London, New York og Seúl í Kóreu auk goðsagnakenndra staða í hliðarheimi.

Þetta er langt í frá fyrsta skiptið sem Funcom frestar útgáfu á tölvuleik. Skemmst er að minnast tölvuleiksins Age of Conan sem var svo dýr og lengi í smíðum að hann brenndi gat í efnahagsreikning fyrirtækisins. Leikurinn kom út árið 2009 og voru vinsældir hans mun minni en vonast var til.

Miðað við uppgjör fyrirtækisins sem birt var í morgun virðist stefna í að The Secret World ætli að verða annað olnbogabarnið úr hugarfylgsnum Funcom-manna. Fyrirtækið tapaði 6,1 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi, jafnvirði tæpra 800 milljóna íslenskr króna.

Hluthöfum fyrirtækisins virðist hins vegar standa á sama enda hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins hækkað um 6,5% í norsku kauphöllinni í dag.

Straumur átti hlut í Funcom

Straumur - Burðarás fjárfestingarbanki keypti 5,5% hlut í Funcom í mars árið 2006 í lokuðu hlutafjárútboði. Hluturinn var á sínum tíma metinn á tæpar 800 milljónir króna. Gengi hluta Funcom, sem skráð er í norsku kauphöllina í Osló og var fyrsti leikjaframleiðandinn þar í landi til að stíga það skref, stóð á þessum tíma í kringum 31,5 norskum krónum á hlut. Það fór hæst í 53 norskar krónur á hlut í maí fyrir fjórum árum. Það stendur nú í 16,9 norskum krónum á hlut og hefur hækkað um 135% síðastliðna 12 mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá ALMC, þrotabúi Straums, seldi félagið alla hluti sína í Funcom á árunum 2008 til 2009 og á nú enga  hluti í félaginu.