Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að vegna þeirra aðstæðna sem væru uppi í hinum alþjóðlega fjármálaheimi hefðu annars reglubundnir fundir forsætisráðuneytis og Seðlabanka Íslands verið fleiri að undanförnu en oft áður.

„[Þ]etta samstarf hefur þurft að vera meira, tíðara og óformlegra en oft áður og menn hafa verið að funda mjög mikið um ákveðin atriði, bæði símleiðis og með öðrum hætti. Síðasti fundurinn um þessi mál var óvart í morgun," sagði  Geir í svari sínu við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, um samskipti ríkisstjórnar og Seðlabankans.

Steingrímur spurði ráðherrann einnig að því hvort rétt væri að ríkisstjórnin hefði fyrir nokkrum mánuðum hafnað eða ekkert gert með beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisforðann.

Geir sagði að það væri hrein fjarstæða. „Bæði ríkisstjórn og Seðlabankinn eru á fullu að vinna í því máli."

Ódýrara að taka lán nú

Geir bætti því við að auðvitað væri bæði bankinn og ríkisstjórnin að vinna sínu vinnu hvað varðaði það að styrkja varnir landsins út á við. „En þau mál eru þess eðlis að það er ekki hægt að tala mikið um það úr ræðustól Alþingis," sagði hann.

„En hitt er annað mál að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið að batna fyrir okkur og það er hægt að spara núna heilmikla peninga með því að hafa frestað lántöku um segjum einn eða tvo mánuði vegna þess að kjörin hafa batnað. Þeir sem eru núna að tala um það að þeir hefðu viljað fyrir svo og svo löngu síðan að það hefði verið farið út á markaðinn og tekið lán, þeir ættu að reikna út hvað það væri miklu ódýrara að gera það núna eða á næstunni miðað við það sem þá var."