Samningamenn bandarískra og suður-kóreskra stjórnvalda sitja um þessar mundir við samningaborðið og reyna að ljúka við gerð víðtæks fríverslunarsamnings. Síðustu forvöð fyrir ríkin til að komast að samkomulagi er næstkomandi mánudag en miklir hagsmunir eru í húfi þar sem líkast til er um að ræða stærsta fríverslunarsamning sem bandarísk stjórnvöld hafa gert frá því að NAFTA fríverslunarsamningurinn var undirritaður árið 1993. Mikillar andstöðu gætir hins vegar á meðal margra hópa í báðum löndum: Þrír suður-kóreskir þingmenn hafa tilkynnt að þeir hyggist fara í hungurverkfall auk þess sem orkufyrirtækið Chevron leiðir hóp bandarískra fyrirtækja sem hafa hótað því að hverfa frá stuðningi sínum við Bandaríkjastjórn um fyrirhugaðan fríverslunarsamning. Stjórnmálaskýrendur telja að aðeins tvennt sé í stöðunni: Annað hvort muni ríkin ná samkomulagi sem felur í sér útþynnta niðurstöðu frá upphaflegum markmiðum eða að samkomulagið muni einfaldlega renna út í sandinn.

Enda þótt búið sé að ná samkomulagi um flesta þætti í samningaviðræðunum þá eru enn nokkur mál eftir - til dæmis er varða hrísgrjónarækt og bifreiðar - sem gætu komið í veg fyrir að stjórnvöld í Washington og Seúl komist að endanlegu samkomulagi fyrir tilsettan frest í lok þessa mánaðar. Ástæðan fyrir þeim tímafresti er fremur einföld: Þann 1. júlí næstkomandi mun umboð George Bush Bandaríkjaforseta frá þinginu til að gera fríverslunarsamninga renna út. Óljóst er hvort að þingmeirihluti demókrata muni samþykkja endurnýjun umboðsins en margir í þeirra röðum eru andvígir fríverslunarsamningum. Af þeim sökum er nauðsynlegt fyrir Bush stjórnina leggja hugsanlegan fríverslunarsamning fyrir Bandaríkjaþing áður en sá frestur rennur út, en eftir þann tíma getur þingið krafist efnislegra breytinga á þeim fríverslunarsamningum sem lagðir eru fyrir það.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.