Næsti fundur fulltrúa ríkisins og slitastjórna föllnu bankanna verður að öllum líkindum í lok þessa mánaðar, en á fundi sem haldinn var í desember kom fram að boðað yrði til annars fundar með slitastjórnum bankanna í janúar. Ekki verður um samningafund að ræða enda hafa fulltrúar ríkisins ítrekað sagt að ekki standi til að gera sérstaka samninga við slitastjórnir bankanna eða kröfuhafa þeirra. Fundurinn verður samráðsfundur, en ætlunin er að halda fleiri slíka samráðsfundi eftir því sem vinnu við afnám hafta miðar áfram.

Ljóst er að áður en af afnámi gjaldeyrishafta geti orðið verður að finna lausn á þeim vanda sem í krónueignum slitabúanna felst. Verði höftum aflétt með þessar krónueignir í eigu kröfuhafa bankanna myndu þær auka mjög þrýsting á gengi krónunnar. Krónueignir slitabúa föllnu bankanna þriggja nema alls 520 milljörðum króna, en þar af eru krónueignir Glitnis tæpir 320 milljarðar og Kaupþings 163 milljarðar. Heildareignir þrotabúanna, samkvæmt fjárhagsupplýsingum þeirra sjálfra eru um 2.600 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .