Viðræður munu hefjast á næstunni á milli Íslands og Evrópusambandsins vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í kjölfar þess að Rússar ákváðu að bæta Íslendingum á lista sinn yfir þær þjóðir sem sæta viðskiptaþvingunum. Þá munu samráðshópur stjórnvalda og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi funda stíft næstu daga vegna málsins, samkvæmt frétt mbl.is .

Þar segir að ekki liggi fyrir nákvæm tímasetning varðandi viðræður Íslands og Evrópusambandsins. Segir Gunnar Bragi Sveinson utanríkisráðherra að það muni þó skýrast innan skamms.

Íslensk stjórnvöld hafa leitað eftir því við ESB að það lækki tolla sína á innflutning frá Íslandi til þess að draga úr áhrifum viðskiptabannsins.

Hagstofan greindi frá því í morgun að vöruútflutningur til Rússlands hefði margfaldast síðustu ár, en árið 2004 voru vörur fluttar út til landsins fyrir 2,3 milljarða króna en á árinu 2014 var útflutningurinn hins vegar kominn í 29,2 milljarða króna. Nam hann þá 4,9% af heildarútflutningi.