Klukkan 20:30 í kvöld verður opinn fundur í Félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal þar sem til stendur að ræða hækkun aðfanga til sauðfjárbænda og verðskrár fyrir dilkakjöt í haust. Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu stendur fyrir fundinum, en framsögumenn verða Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Jóhannes Sigfússon, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigurður Jóhannesson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa.

Í frétt Bændablaðsins um málið er haft eftir Ásmundi Daðasyni, formaðnni Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu, að boðað sé til fundarins vegna þess að sauðfjárbændur séu verulega uggandi um stöðu sína. Aðfangahækkanir hafi verið mjög miklar og hækkanir á verði á dilkakjöti sem komið hafa fram í þeim verðskrám sem birtar hafa verið nægi engan vegin fyrir kostnaðarhækkunum bænda.

„Við erum að sjá það í fyrsta skiptið að skilaverðið á Íslandi er komið undir það verð sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Við viljum fá fram umræðu m.a. um þetta á fundinum og þess vegna höfum við kallað í þessa framsögumenn, sem koma úr öllum áttum greinarinnar,“ segir Ásmundur við Bændablaðið.