„Við fylgjumst með og vonumst til að menn klári þetta í dag. Við höfum áhyggjur af málinu,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Hún fundaði í stjórnarráðinu í hádeginu í dag með þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um áhrif af hugsanlegu allsherjarverkfalli rúmlega 400 félagsmanna í Félagi flugvallarstarfsmanna ríkisins (FFR), SFR stéttarfélagi og Landssambandi slökkviliðs - og sjúkraflutningamanna. Að óbreyttu skellur verkfallið á klukkan fjögur í nótt.

Deiluaðilar höfðu nóttina til að semja. Upp úr viðræðum slitnaði á sjöunda tímanum í morgun. Reyna á til þrautar að ná samningum áður en nýr dagur rís. Hanna Birna segir ríkisstjórnina ekki ætla að blanda sér í málið fyrr en niðurstaða deilenda liggur fyrir.

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að verkfallið geti haft áhrif á níu þúsund flugfarþega.

Hanna Birna fjallaði um málið á fundir ríkisstjórnarinnar í stjórnarráðinu í morgun. Undir hádegi fóru aðrir ráðherrar af fundi en ekki þau Hanna Birna, Sigmundur og Bjarni. Verði lög sett á verkfallið þá verður þetta í annað sinn á tiltölulega stuttum tíma sem það gerist. Fyrra skiptið var í byrjun apríl þegar lög voru sett á verkfall starfsmanna Herjólfs.