Þorláksbúðarfélagið hefur nú skilað ársreikningum félagsins til Ríkisendurskoðunar. Þetta staðfesti Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi í samtali við Viðskiptablaðið. Ríkisendurskoðandi ætlar að funda með forsvarsmönnum félagsins, þeim Árna Johnsen þingmanni og Agli Hallgrímssyni, sóknarspresti í Skálholti,  í þessari viku. "Vonandi verður upplýst um það sem spurt verður um," segir Sveinn en vildi ekki upplýsa um hvaða spurningar það væru sem forsvarsmenn félagsins verða beðnir um að svara.

Ríkisendurskoðandi óskaði eftir ársreikningum félagsins vegna framkvæmda félagsins og veitti fyrst frest um miðjan janúar  til 1. febrúar til að skila ársreikningum fyrir árin 2008, 2009, 2010 og 2011. Síðar var aftur veittur frestur til 2. apríl.