Forsætisráðherra Noregs, fjármálaráðhera og Seðlabankastjóri hittust á sérstökum fundi í dag til að ræða hversu mikil áhrif lækkandi olíuverð mun hafa á norskan efnahag.

Samkvæmt frétt Bloomberg hafa ráðamenn í Noregi hafa hingað til forðast að nota orðið kreppa til að lýsa ástandinu og segja að veiking krónunnar, lækkun vaxta og magnbundnar íhlutanir ríkisins mun bæta ástandið. Núna eru þeir þó að gera sér grein fyrir ástandinu og að raunverulegt vandamál sé til staðar. Talið er að um 30.000 störf hafi tapast og munu ekki koma aftur.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg sagði í viðtali við Bloomberg að það væri enn hagvöxtur í Noregi. „Þegar olíuverð lækkaði þá veiktist norska krónan. Það hjálpar öðrum geirum hagkerfisins að jafna út slakan í hagkerfinu. Hagkerfið er þó í hægari snúning en það hefur verið síðustu ár.“

Norska krónan hefur veikst um 15% á móti evrunni síðastliðið ár, en veikingin hefur hjálpað norskum efnahag að jafna sig á því höggi sem lækkun olíuverðs hefur verið. Um það bil 20% af landsframleiðslu Noregs er vegna olíuvinnslu, en olíuverð er búið að lækka mikið undanfarið.

Solberg hefur sagt að þrátt fyrir að olíugeirinn sé í krísu, þá séu aðrir hlutar efnahagsins það ekki. Seðlabankinn hefur sagt að hann sé tilbúinn að lækka stýrivexti enn frekar, en þeir eru nú í 0,75%.