Þegar kemur að fundar-, ráðstefnu- og hátíðarhöldum er af nægu að taka varðandi staðsetningu hér á landi. Harpan kemur strax upp í hugann, og mýmargir aðrir staðir bjóða góða aðstöðu í höfuðborginni. Á Norðurlandi er einnig nokkuð gott úrval, meðal annars stærsta ráðstefnuhótel landsins sem skartar heilum átta fundarsölum.

Kostirnir eru hins vegar heldur færri á Suðurlandi í þessum efnum, og þá sérstaklega Suðausturlandi. Þar reis hins vegar fyrir nokkrum árum fjögurra stjörnu hótel sem hentar vel fyrir minni ráðstefnur og fundi eða stærri samkomur með léttara yfirbragði.

125 herbergi eftir nýlega stækkun
Fosshótel Jökulsárlón stendur á Hnappavöllum við rætur Öræfajökuls og opnaði sumarið 2016, þá með 104 herbergi, þar af fjórar svítur. Í dag eru herbergin orðin 125 og svíturnar sex, og þær nýju skarta einkapottum. Aðalsmerki hótelsins er stórbrotin náttúran sem umlykur hótelið, en þar má auk fallegs útsýnis í allar áttir finna á annað hundrað gönguleiðir.

„Það er mjög algengt að fólk fari í göngutúr hérna í nágrenninu. Það er til dæmis gönguleið upp á hæðina hérna fyrir ofan, sem er með mjög flott útsýni í allar áttir, og svo er foss hérna rétt við hliðina á hótelinu í stuttu göngufæri,“ segir Harpa Magnúsdóttir Hótelstjóri, og má því segja að hótelið standi undir nafni.

Inni á hótelinu sjálfu er svo boðið upp á sánu, slökunarherbergi og nýopnaða líkamsræktarstöð, auk þess sem verið er að ljúka við uppsetningu tveggja heitra potta.

Allt frá kvikmyndagerð til jógaæfinga
Af ofangreindu er ljóst að ráðstefnugestum mun ekki leiðast milli funda, og hótelið hentar sérstaklega vel fyrir árshátíðir og aðra slíka léttari viðburði. Þegar kemur að fundarhöldunum sjálfum er einn fundarsalur á hótelinu, sem tekur allt að 40 manns í svokallaðri bíó-uppstillingu, en rúman helming þess í fundarsetu. „Við höfum verið með litla hópa sem hafa notað fundarsalinn í allt frá vinnu tengdri kvikmyndagerð til jógaæfinga.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .