Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, vísaði því á bug í morgun að nefndin hafi ekki sýnst áhuga á því að taka fyrir mál þingmannsins Guðlaugs Þ. Þórðarson er varða málefni SpKef.

„Það á ekki við rök að styðjast,“ sagði hún og vísaði til frásagna fjölmiðla af málinu. Hún benti á að óskað hefði verið eftir því fyrir helgina síðustu að nefndin tæki málið upp. Það verður gert í fyrramálið og sagði Valgerður að fulltrúar fjármálaráðuneytis og fjármálaeftirlits muni mæta á fundinn.

„Okkur greinir á um margt í nefndinni en ég vil taka fram að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki á neinn hátt reynt að seinka því máli sem um ræðir,“ sagði Valgerður.

Guðlaugur hefur þrýst á um að málið verði tekið upp, ekki síst eftir að sérstök úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ríkið verði að greiða Landsbankanum rúma 19 milljarða króna vegna ríkisábyrgðar á innstæðum SpKef. Sex milljarðar króna vaxtagreiðslur bætast við sem ríkið greiðir af skuldabréfi sem það tekur í tengslum við greiðsluna.

Guðlaugur fagnaði því að málið verði tekið fyrir hjá nefndinni og sagði margt þurfa að skoða er varði SpKef. Vísaði hann m.a. til þess að í fréttum hafi komið fram að á því tæpa ári sem SpKef starfaði  hafi hann safnað miklum skuldum við Seðlabanka Íslands. „Mér vitanlega hefur það aldrei áður komið fram,“ sagði hann og bætti við að hann teldi Steingrím J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, ekki hafa góða samvisku í málinu.