Viðræður um hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins hafa tekið lengri tíma en áætlað var, aðallavega vegna kröfu Evrópusambandsins um mikla hækkun tollkvóta inn til Íslands. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á þingi fyrr í dag.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann um samningna um tollkvóta fyrir íslenskar landbúnaðarvörur, svo sem skyr, lambakjöt og annað. Þá spurði hann um upphaflegar kröfur Íslands og ESB í samningunum og hvenær fundir hafi verið haldnir. Sigurður Ingi greindi frá því að Ísland gerir kröfu um að tollkvóti á lambakjöt verði aukinn úr 1850 tonnum í 4000 tonn og vill jafnframt að kvóti á skyr verði hækkaður úr þeim 350 tonnum sem hann er nú.

Sigurður Ingi segir næsta fund um samningana áætlaða 12. - 13. febrúar næstkomandi. Síðasti fundur hafi verið haldinn í Brussel fyrir ári síðan. Tregðan í samningunum hafi komið til af ýmsum ástæðum en aðallega vegna kröfu Evrópusambandsins um mikla hækkun á kvótum.