Fundi aðildarfélaga BSRB við samninganefnd ríkisins er nú lokið án nokkurrar niðurstöðu, að því er kemur fram í frétt á vef SFR. Í fréttinni segir að samninganefnd ríkisins hafi ekki tekið á móti útréttri hönd BSRB og vilji að samið verði til svo langs tíma, að hann myndi ná yfir allt kjörtímabil núverandi ríkisstjórnar, án nokkurrar útfærslu á fyrirheitum hennar um bætt kjör hinna lægst launuðu. Slíkt komi ekki til greina að mati BSRB.

BSRB leggur aftur á móti áherslu á að samið verði til styttri tíma og aðilar sameinist á því tímabili um það markmið að ná jafnvægi í samfélaginu og að ríkisvaldið efni fyrirheit um leiðréttingu á launum til kvennastétta, umönnunarstétta og annarra lágt launaðra stétta. Því sá BSRB ekki ástæðu til að halda viðræðum áfram að sinni og lauk fundi eftir að hafa lagt fram ósk um fund með ríkisstjórn Íslands.