Sérstakri umræðu um skuldaleiðréttinguna var frestað á Alþingi rétt í þessu, en hún hófst klukkan þrjú í dag og átti að standa í þrjár klukkustundir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu forsætisráðherra fyrir þinginu en yfirgaf svo þingsalinn.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu undan því að Sigmundur Davíð skyldi ekki vera viðstaddur alla umræðuna og því ákvað Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, að fresta umræðunni þar til Sigmundur Davíð gæti verið viðstaddur umræðuna. Henni verður því haldið áfram á morgun.

Einar sagði þingmönnum að forsætisráðherra hafi þurft að fara á mikilvægan fund, og hefði þess vegna ekki getað verið viðstaddur alla umræðuna.