Úrskurðarnefnd lögmanna fann að háttsemi lögmanns við hagsmunagæslu hans fyrir skjólstæðing sinn. Til greina kom að áminna hann en þar sem ekki þótti sannað að handvömm hans hafi orðið til réttarspjalla var aðfinnsla látin nægja.

Á haustmánuðum 2015 leitaði einstaklingur til lögmannsins vegna mögulegrar kröfu sem hann taldi sig eiga á fjármálafyrirtækjum vegna ofgreiðslu samkvæmt lánasamningum með ólögmætri gengistryggingu. Áðurnefnd uppgreiðsla átti sér stað í janúar 2008, það er áður en hið alþekkta efnahagslega gjörningaveður gekk yfir landið og áður en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gengistryggingin væri ólögmæt.

Eftir fyrsta fund aðila tjáði lögmaðurinn manninum að talsverða rannsóknarvinnu þyrfti til að meta stöðuna. Greiddi hann fyrir hana 200 þúsund krónur og fékk fyrir lögfræðilega álitsgerð þar sem fram kom að nokkur vafi væri um það hverjar málalyktir yrðu. Í árslok var fundað á ný og þá stefnt að því að reyna að sætta málið og lögmannsumboð undirritað. Bæri að greiða lögmanninum 100 þúsund krónur en þóknunin yrði að öðru leyti árangurstengd, það er lögmaðurinn fengi 25% af dómkröfunni ef dómur félli manninum í hag.

Það er skemmst frá því að segja að vinna við málið gekk hægt. Lögmaðurinn sendi bréf á banka og fjármálastofnanir og kallaði eftir gögnum. Virðist það hafa verið gert öðru hvoru á árunum 2016 til 2018. Varð það úr að lokum að maðurinn leitaði til úrskurðarnefndar lögmanna í fyrra enda lítil sem engin hreyfing hefði orðið á málinu á þessum tíma.

„Um það kvörtunarefni kæranda að [lögmaðurinn] hafi ekki sinnt málinu af alúð og rekið það áfram með hæfilegum hraða er þess að gæta að [honum] mátti vera það ljóst við upphaf starfans að kærandi lagði mikla áherslu á að málið yrði unnið án ástæðulauss dráttar, þar á meðal að teknu tilliti til hugsanlegrar fyrningar krafna, og að slíkt varðaði aðilann miklu. Bera ítrekuð tölvubréf kæranda til [lögmannsins] og fulltrúa hans jafnframt með sér að aðilinn hafi lagt ríkt traust á að [hann], sem lögmaður, sinnti málinu af alúð þannig að hagsmuna hans yrði gætt í hvívetna og að réttarspjöll hlytust ekki af,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Að mati nefndarinnar hafði lögmaðurinn ekki gefið fullnægjandi skýringar á því hvers vegna svo lítið hefði verið aðhafst á fyrrgreindu tímabili. Sú vanræksla væri í andstöðu við ákvæði laga um lögmenn sem og siðareglur lögmanna. Hins vegar þótti ekki sannað að þetta hefði orðið til réttarspjalla. Var vísað til þess að krafan hafi verið greidd í janúar 2008, það er áður en breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu og fyrningu krafna voru gerðar. Var því látið nægja að finna að háttsemi lögmannsins og slapp hann þar með við áminningu.