Fulltrúar Landsvirkjunar og Landsnets funduðu með fulltrúa ESA í dag vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að hefja rannsókn á raforkusamningum við PCC. Fyrirtækið PCC hyggst reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík.

Tæpur mánuður er síðan ESA ákvað að hefja rannsókn á samningunum við Landsvirkjun og Landsnet. ESA dregur í efa að væntar tekjur af orkusölu til PCC séu nægar miðað við áætlaðan kostnað við Þeistareykjavirkjun. ESA telur enn fremur að það kosti 5 milljarða króna að tengja verksmiðjuna við virkjunina og flutningskerfi Landsnets og vafi leiki á því að sú fjárfesting feli í sér ívilnun til handa PCC. Oda Helen Sletnes, forseti ESA, segir að skera þurfi úr um hvort í raun sé um ríkisaðstoð að ræða.

Kom á óvart

Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, segir að ákvörðun ESA hafi komið á óvart. Raforkusamningurinn við PCC sé einn sá hagstæðasti sem Landsvirkjun hafi gert. Hann segir að Landsvirkjun hafi þegar verið í sambandi við ESA vegna málsins og að fundað verði með fulltrúum ESA síðar í mánuðinum þar sem farið verði yfir sjónarmið og skýringar Landsvirkjunar.

„Landsvirkjun mun færa rök fyrir því að í raforkusamningnum við PCC felist ekki ríkisaðstoð,“ segir Magnús Þór. „Samningur við PCC er gerður á viðskiptalegum forsendum og raforkuverð endurspeglar að fullu markaðsaðstæður á íslenskum raforkumarkaði. Uppbygging jarðhitavirkjana á Þeistareykjum er gerð í þrepum til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu. Fyrstu skref nýtingarinnar eru kostnaðarsamari en síðari skrefin.“

Magnús Þór segir að auk þess að funda með ESA muni Landsvirkjun senda skriflegar athugasemdir. „Svona ferli tekur óhjákvæmilega tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .