„Það hafa lengi verið efasemdir um fyrirkomulag þessarar upplýsingamiðlunar þar sem fólki er jafnvel sýnd dæmi um núll prósenta verðbólgu,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Á fundi nefndarinnar á miðvikudag í síðustu viku voru lögð fram drög að breytingatillögu um afgreiðslu á neytendalánum. Þar var m.a. gert ráð fyrir þeirri breytingu að lánveitendur þurfi að taka inn í árlega hlutfallstölu kostnaðar í verðtryggðum lánum verðbólgu eins og hún er á hverjum tíma.

Maria Elvira Mendez Pinedo
Maria Elvira Mendez Pinedo

Nefndin fékk Elviru Mendez Pinedo, prófessor og sérfræðing í Evrópurétti við Háskóla Íslands, á fund nefndarinnar í hádeginu í dag til að fara yfir þá þætti í svörum sem hún hefur fengið frá Evrópusambandinu.

„Þau virðast vera á svipuðum slóðum, þ.e.a. s. að upplýsa eigi um þessi lán eins og lán með breytilegum vöxtum,“ segir Helgi í samtali við vb.is

„Við munum skoða betur á milli umræðna með hvaða hætti er fullnægjandi að upplýsa neytendur um breytingar á vaxtastiginu til hækkunar og hvort það er hægt að gera með greiðsluseðli eða með öðrum hætti,“ segir hann en bætir við að vilji nefndarinnar hafi líka staðið til þess að neytendur verði upplýstir um þróun verðbólgu yfir lengra tímabil, s.s. tíu ára, og þróun kaupmáttar þegar það hafi sem bestar upplýsingar þegar það er að taka ákvörðun um skuldsetningu.