Haft er eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að óþarfi sé að hafa áhyggjur af því efni auglýsingar sem beinist gegn aðgerðum stjórnvalda við afnám hafta. Í frétt Ríkisútvarpsins er sagt frá því að fundað hafi verið um málið í Stjórnarráðinu í dag.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær var heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu kostuð af Iceland Watch. Þar var tekið fram að „mismununarstefna íslensku gjaldeyrishaftanna“ kosti hvern íslenskan ríkisborgara 15 til 20 þúsund króna árlega.

Iceland Watch er verkefni á vegum Institute for Liberty í Bandaríkjunum, er merkt samtökunum og forseta þeirra, Andrew Langer.

Í frétt RÚV segir að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra hafi fundað um herferð bandarísku hugveitunnar í Stjórnarráðshúsinu í morgun, ásamt seðlabankastjóra og embættismönnum. Már seðlabankastjóri segir að Seðlabanki Íslands hafi engar áhyggjur af því að neitt sem kemur fram í auglýsingunni eigi við rök að styðjast.

Viðskiptablaðið fjallaði um það í gær að Sigurður Ingi Jóhanesson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, myndi gangast við því að berjast fyrir hagsmunum Íslands, í færslu með yfirskriftinni; „ Við gefumst aldrei upp !“