Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fundaði með formönnum stjórnarflokkanna, þeim Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, á miðvikudag vegna vinnu sem ráðuneyti hennar hefur lagt í vegna svara við kæru Geirs H. Haarde til mannréttindadómstóls Evrópu.

Fram kemur um málið í Morgunblaðinu í dag að fundurinn var stuttur og hafi hún upplýst þá Bjarna og Sigmund um þá vinnu sem farið hafi fram í ráðuneytinu til að svara erindi Mannréttindadómstólsins.

Landsdómsmálið

Alþingi ákvað í september árið 2010 að ákæra Geir H. Haarde fyrir vanrækslu í starf í aðdraganda bankahrunsins. Fimm ákæruatriðum af sex var ýmist vísað frá dómi eða hann sýknaður af þeim. Geir var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa ekki sett „mikilvæg stjórnarmálefni" með formlegum hætti á dagskrá ríkisstjórnarfunda eða „tekið þau upp" á þeim vettvangi.

Geir taldi hins vegar að í landsdómsmálinu hafi íslenska ríkið brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu er lúta að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og reglu um enga refsingu án laga. Í nóvember í fyrra greindi Mannréttindadómstóllinn svo frá því að hann ætli að taka mál Geirs fyrir. Dómstóllinn krafði stjórnvöld svara um nokkrar spurningar í málinu og á að svara þeim fyrir 6. mars næstkomandi.