„Á öðrum Davos-fundi var ég að aðstoða við að koma á laggirnar verkefni til að minnka áhrif loftslagsbreytinga og við héldum partí, þangað sem við buðum forstjórum og frægu fólki. Þegar ég var að ganga inn í dalinn mætti mér kollegi minn úr skipulagshópnum og spurði hvort ég gæti leyst hann af við að taka á móti gestum og veita ofurfyrirsætunni Claudiu Schiffer félagsskap, en hún var heiðursgestur í veislunni. „Claudiu Schiffer?“ spurði ég. „Með glöðu geði.“

Svona hefst saga Björgólfs Thors Björgólfssonar af veislu, sem haldin var í tengslum við árlega ráðstefnu í Davos í Sviss. Sögunni deilir hann í nýrri bók sinni. Þar lýsir hann því að þar sem hann stóð og beið eftir Schiffer hafi sími hans hringt. Stjórnarformaður Blackstone Group, Steve Schwarzman, hafi viljað hitta hann eftir fimm mínútur. Þurfti Björgólfur því að finna einhvern til að taka við í móttökunni og sem fylgdarsveinn Schiffer. „Ég vona að þú gerir þér grein fyrir því hvað ég er að gera fyrir þig hérna í dag, því með því að hitta þig er ég að gefa upp á bátinn fund með Claudiu Schiffer.“ Þegar Schwarzman gerði sér grein fyrir því að hún væri á staðnum segir Björgólfur að hann hafi strax haft meiri áhuga á að fara inn í veisluna og hitta hana.

Björgólfur fékk að hitta Schiffer í stutta stund eftir fundinn með Schwarzman, en það entist ekki lengi. Aðstoðarmaður Björgólfs kom að máli við hann með aðstoðarmann fjölmiðlajöfursins Ruperts Murdoch í eftirdragi og sagði hann þurfa að fá bifreið Björgólfs lánaða. Fljótlega hafi Murdoch sjálfur komið - mjög afslappaður og glaður í bragði, eins og það er orðað í bókinni, þar sem hann hafði fengið sér sinn skerf af kampavíninu sem í boði var í veislu Google í næsta veislusal.

Ekki var hins vegar nóg að lána þeim bíl Björgólfs Thors, því Björgólfur þurfti sjálfur að fylgja þeim að bílnum, af því að bílstjórinn þekkti engan annan en hann. „Ég þurfti því aftur að biðja Claudiu afsökunar og fylgdi mjög hamingjusömum Murdoch að bílnum. Auðvitað var hún farin þegar ég kom aftur. Þetta eru mjög dæmigerðar fimmtán mínútur í Davos.“