Hver af þeim 20 borgarstjórnarfundum sem haldnir voru á einu ári í Reykjavík kostaði 850 þúsund krónur að meðaltali eða í heildina 17 milljónir króna að því er RÚV greinir frá. Þar af er borðað fyrir 295 þúsund krónur á hvern fund að meðaltali en með drykkjarföngum er kostnaðurinn kominn í 360 þúsund krónur.

Í mat eru auk þeirra 23 borgarfulltrúa þrír húsverðir, varaborgarfulltrúar og embættismenn, í heildina um 40 manns að því er fram kemur í athugasemd aðstoðarmanns borgarstjóra.

Tölurnar komu fram í svari fjármála- og áhættustýringasviðs við fyrirspurn Pawels Bartoszek forseta borgarstjórnar. Viðbrögð borgarfulltrúa minnihlutans létu ekki á sér standa, Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins segir þetta „hrikalegar tölur,“ og segir lausnina einfalda, að byrja fundina fyrr.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins gerði athugasemdir við mikinn kostnað við útsendingar frá fundunum sem væru jafnframt lélegar og vildi samanburð við útsendingar frá Alþingi.

Pawel segir í samtali við RÚV að hann hafi lagt fram fyrirspurnina vegna gruns um að kostnaðurinn hafi aukist. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma hafnaði meirihlutinn í borginni því að óska eftir því að borgarfulltrúum yrði ekki fjölgað úr 15 í 23 í kosningunum á síðasta ári, en ljóst var fyrirfram að kostnaðurinn myndi aukast töluvert við fjölgunina.

Hann segir að hægt væri að ná niður kostnaði, til dæmis vegna kvöldmatar, með því að loka fundum fyrir klukkan 6 að kvöldi. „Almennt séð væri æskilegt fyrir alla ef borgarfulltrúar gætu borðað heima með sínum nánustu og við þyrftum heldur ekki að borga fyrir yfirvinnu húsvarðar og annarra starfsmanna.“