Skilanefnd Kaupþings mun eiga fund með kröfuhöfum bankans á morgun. Að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns skilanefndar bankans, er um að ræða stöðufund þar sem farið verður yfir framvindu mála með kröfuhöfum og þeir upplýstir um framgang mála.

Skilanefndinn hélt fund með kröfuhöfum fyrir mánuði síðan og hefur síðan átt tvo símafundi með þeim. Að sögn Steinars hafa kröfuhafar óskað eftir nánari upplýsingum á ýmsum sviðum og væri skilanefndin að bregðast við því með fundinum á morgun. Kröfuhafar í Kaupþing eru að mestu leyti erlendir.

Einnig hefur verið ákveðið að aðstoðarmaður félagsins í greiðslustöðvunarferlinu haldi fund með kröfuhöfum 5. febrúar næstkomandi. Það er Ólafur Garðarsson hrl. sem er aðstoðarmaður í greiðslustöðvun og tekur valdsvið hans yfir valdsvið skilanefndar ef upp rís ágreiningur en hlutverk hans er að gæta jafnræði allra kröfuhafa. Sá fundur er fyrir alla kröfuhafa.

Eins og komið hefur fram þá er stefnt að sölu starfsemi Kaupþings í Lúxemborg og verður greitt fyrir starfsemina 1 evra. “Þetta tengist ekki fundinum á morgun að öðru leyti en því að Lúxemborg er ein af fjöldamörgum eignum gamla Kaupþings. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að þú færð ekki háar fjárhæðir fyrir banka sem er í greiðslustöðvun,” sagði Steinar Þór.