Fundur stjórnenda Íslandspósts (ÍSP) með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í nóvember 2019 liðkaði fyrir pattstöðu sem ríkt hafði milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Póstsins varðandi alþjónustugreiðslur. Félagið fékk 250 milljón króna bráðabirgðagreiðslu frá eiganda sínum en það var helmingi minna en það vildi.

Á dögunum sagði Birgir Jónsson starfi sínu lausu sem forstjóri Íslandspósts og Þórhildur Ólöf Helgadóttir, sem áður var fjármálastjóri hins opinbera hlutafélags, tók við af honum. Fyrir tæpum mánuði var sagt frá því í Viðskiptablaðinu að kastast hefði lítillega í kekki milli fyrrverandi forstjóra og stjórnar vegna ummæla hans í fjölmiðlum.

Síðustu áramót tóku gildi ný lög um póstþjónustu sem afnámu einkarétt ríkisins á bréfasendingum. Einn rekstraraðili ætti hins vegar að sinna svokallaðri alþjónustu á landinu öllu en sú gildir fyrir pakkasendingar að 20 kg. Við meðferð málsins ákvað umhverfis- og samgöngunefnd þingsins að verð fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama á landinu öllu, óháð því hver raunkostnaður sendingarinnar væri.

Þetta „eitt land, eitt verð“ klúður þingsins setti Póstinn í smá bobba því í lagaákvæðið á undan kvað um að gjaldskrá alþjónustu skyldi taka mið af „raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði“. Raunkostnaður er auðvitað ekki sá sami þegar um er að ræða sendingu frá úr póstnúmeri 101 í 107 samanborið við 101 í 691 en verðið átti lögum samkvæmt að vera hið sama. Sú leið var farin að lækka aðrar gjaldskrár niður á verð höfuðborgarsvæðisins og krefja síðan eigandann um mismuninn.

Samkvæmt samþykktum Póstsins er það stjórnar að taka ákvörðun um gjaldskrá félagsins. Af fundargerðum stjórnar, sem blaðið fékk afrit af í krafti upplýsingalaga, er ekki að sjá að stjórnin hafi samþykkt fyrrnefnda „eitt land, eitt verð“ gjaldskrá. Rétt er að gera þann fyrirvara við þá fullyrðingu að eftir að blaðið hóf að sýna fundargerðunum áhuga varð innihald þeirra talsvert rýrara.

Niðurstaða útreikninga Póstsins á umfangi alþjónustunnar var sú að félagið ætti að fá 490 milljónir króna árið 2020 fyrir að sinna henni, þá aðallega sökum aukins kostnaðar vegna „eitt land, eitt verð“. Illa gekk að ná saman við Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) en skriður komst á málið í nóvember í fyrra, að því er virðist eftir að formaður stjórnar Íslandspósts, Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna, og forstjóri fóru á fund forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Þar var staða þjónustusamnings rædd og lýstu ráðherrarnir yfir, að því fram kemur í fundargerð, „velvild í garð ÍSP og ánægju með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til að bæta rekstrarstöðu þess.“ Fjármálaráðherra lýsti yfir vilja til að vinna með fyrirtækinu að því að bæta rekstrarhæfi og efnahag félagsins.

Í yfirliti um bókhaldslegan aðskilnað ÍSP, sem PFS birtir ár hvert, vegna ársins 2019 kemur fram að 1,1 milljarðs króna tap hafi verið á þeim flokkum sem falla undir alþjónustu. Þar af var tap af samkeppnisrekstri innan alþjónustu 527 milljónir króna. Þrátt fyrir það var sú ákvörðun tekin að lækka gjaldskrá þeirra flokka í samræmi við ákvæðið „eitt land, eitt verð“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .