Árlegur fundur norrænna framkvæmdastjóra í atvinnulífi og iðnaði var haldinn í Reykjavík 29. ágúst síðastliðinn.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins (SI)en umræðuefni fundarins var þrískipt þar sem fjallað var um stöðu Norðurlandanna í alþjóðlegu efnahagskerfi.

„Áhersla var lögð á sérstöðu landanna, þróun á vinnumarkaði og stefnu í menntamálum,“ segir á vef SI.

Í umfjöllun um stöðu Norðulandanna í alþjóðlegu efnahagskerfi kom meðal annars fram að mikilvægt er fyrir þau að styrkja samkeppnishæfni og viðskiptatraust. Til þess ættu þau einkum að líta til nýsköpunar, menntunar og sköpunar í atvinnulífinu.

Þá var ný sameiginleg skýrsla samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum um stöðu og horfur á norrænum vinnumarkaði kynnt. Þar kemur meðal annars fram að á Norðurlöndunum eru10-15% fólks á vinnualdri utan vinnumarkaðar tímabundið eða til frambúðar vegna heilsufarsvanda.

Samkvæmt vef SI er útlit fyrir að fólki muni fækka á norrænum vinnumarkaði á næstu árum og áratugum. Fjölmennir árgangar eru auk þess að fara á eftirlaun og ungt fólk byrjar seinna að vinna en áður.

Menntamálin skipuðu stóran sess í umræðum fundarins og ljóst að Norðurlöndin glíma við ámóta vandamál á því sviði. Alls staðar er verið að gera gagngerar breytingar á menntakerfinu sem meðal annars felast í aukinni þátttöku atvinnulífs og miða að því að laða að fleiri nemendur í tækni- og iðnnám.